Fékk ekki að lækka gjaldskrárhækkanir Orkuveitu Húsavíkur

Á fundi stjórnar Orkuveitu Húsavíkur í vikunni var tekin fyrir tillaga Valdimars Halldórssonar, varaformanns þess efnis að dregið yrði úr fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum en Valdimar taldi næga innistæðu fyrir hendi til að lækka umrædda hækkun.

Lagði hann til að gjaldskrárhækkun OH yrði lækkuð úr 5,0% í 3,5% fyrir árið 2024. „Þetta er í samræmi við tilmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga til sveitarfélaga sem lögð voru fram í tengslum við nýlega samþykkta kjarasamninga á vinnumarkaði sem miða að lækkun á verðbólgu og vöxtum. Orkuveitan er auk þess í góðri stöðu til að lækka aðeins gjaldskrárhækkun til íbúa sveitarfélagsins í ljósi mjög sterkrar fjárhagslegrar stöðu,“ segir í tillögu Valdimars.

Tillagan var felld með þeim rökum að gjaldskrárhækkanir OH hafi verið mjög hóflegar undanfarin ár.

„Undanfarin ár hefur stjórn Orkuveitu Húsavíkur meðvitað haldið verðhækkunum í lágmarki og þar af leiðandi hafa hækkanir verið mjög hóflegar. Hækkanirnar hafa verið það hóflegar að þær hafa ekki náð að halda í við hækkun vísitölu og almenna þróun verðlags. Síðasta gjaldskrárhækkun var engin undantekning og er því svo komið að verðskrá Orkuveitu Húsavíkur fyrir heitt vatn er sú lægsta á norðurlandi eystra samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar.

Það er mat meirihlutar stjórnar Orkuveitu Húsavíkur ohf. að ekki sé tilefni til að breyta af stefnu og verða því þær hækkanir sem samþykktar voru á 249. fundi stjórnar Orkuveitunnar þann 14. október, 2023, óbreyttar,“ segir í bókun stjórnar OH.

Þetta þótti Valdimar ekki góð skilaboð í kjölfar fyrrnefndra kjarasamninga.

Með því að lækka ekki gjaldskrárhækkun Orkuveitu Húsavíkur niður í 3,5% eins og mælst er til af aðilum vinnumarkaðarins og Sambandi sveitarfélaga í tengslum við kjarasamningagerð mun hægja á því að vextir og verðbólga lækki. Það eru ekki góð skilaboð í því,“ lét Valdimar bóka.

 


Athugasemdir

Nýjast