„Sjávarútvegurinn er á undan stjórnvöldum í innleiðingu umhverfisvænnar tækni“

Hákon Þröstur Guðmundsson er útgerðarstjóri Samherja Myndir  Birgir Ísleifur Gunnarsson/SFS
Hákon Þröstur Guðmundsson er útgerðarstjóri Samherja Myndir Birgir Ísleifur Gunnarsson/SFS

Hákon Þröstur Guðmundsson útgerðarstjóri Samherja var endurkjörinn í stjórn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ( SFS) á ársfundi samtakanna sem haldinn var 3. mai s.l.

Hákon Þröstur þekkir vel til starfsemi SFS, var í stjórn 2019 – 2020 og samfellt frá 2022. Hann er menntaður skipstjórnarmaður og var í liðlega tvo áratugi skipstjóri á skipum Samherja, síðustu sautján árin hefur hann hins vegar starfað á útgerðarsviði félagsins.

Óbein störf sem tengjast sjávarútvegi skipta þúsundum

„Sjávarútvegur er burðarás atvinnulífsins víða á landsbyggðinni, svo sem á Eyjafjarðarsvæðinu, og er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Þessu til staðfestingar nægir að nefna að útflutningsverðmæti sjávarafurða á síðasta ári voru 352 milljarðar króna og bein störf í sjávarútvegi eru á bilinu átta til níu þúsund. Óbein störf sem tengjast sjávarútvegi skipta þúsundum, enda hafa íslensk sjávarútvegsfyrirtæki verið framarlega í innleiðingu margra tækninýjunga og tekið þannig þátt í að skapa ný vel launuð störf, svo sem á sviði hátækni.

Ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því óska eftir starfskröftum mínum næsta árið.“

Olíunotkun hefur dregist saman um 40%

Hákon Þröstur hefur tekið virkan þátt í stefnumótun og málefnavinnu SFS á undanförnum árum, svo sem á sviði umhverfismála.  

,,Í vor var kynnt ný umhverfisskýrsla SFS og þar kemur fram að íslenskur sjávarútvegur hefur dregið úr olíunotkun á hafi um nærri 40 % frá árinu 1990. Eins og við þekkjum hafa fiskimjölsverksmiðjurnar neyðst til að keyra á olíu, þrátt fyrir rafvæðingu þeirra. Samdrátturinn væri líklega um 50 % ef ekki hefði komið til skerðingar á raforku til verksmiðjanna á síðustu tveimur árum. Víð Íslendingar berum okkur gjarnan saman við Noreg, þar í landi hefur sjávarútvegurinn dregið úr olíunotkun um 10% á síðustu tveimur áratugum. Þá er búið að skipta út kælimiðlum í fiskiskipaflotanum og taka í notkun umhverfisvænni búnað.

 Flest fyrirtæki hafa sömuleiðis fjárfest verulega í nýrri umhverfisvænni tækni á mörgum sviðum starfsemi sinnar, svo sem í landvinnslunni og endurnýjun skipaflotans.

Í bættri orkunýtingu má heldur ekki gleyma smáu atriðunum sem telja til samans. Skipstjórnarmenn eru að bæta olíunýtinguna með góðum vélgæslukerfum og annað sem telur er sóknar- og aflastýring skipanna sem hefur markvisst dregið úr olíunotkun. Það er ekki sjálfgefið að ná þessum árangri en með yfirsýn og jafnvægi innan greinarinnar mun jafnvel nást enn meiri árangur í orkunýtingu á hvert kíló. Í raun og veru hafa fyrirtækin verið á undan stjórnvöldum í þessum efnum. Næg umhverfisvænni orka er til staðar, ‏‏það þarf bara að beisla hana og nýta, hvort heldur er vatn eða vindur.

Staðan í þessum efnum setur efnahagslífið í kyrrstöðu sem í heimi framfara er ekkert annað en afturför.“

 Mikilvægt að skapa sátt um greinina

Hákon Þröstur segir nauðsynlegt að tryggja vöktun og nýtingu nytjastofna í hafi. Í því skyni þurfi meðal annars að efla Hafrannsóknarstofnun, þannig að hún geti sinnt lögbundnum verkefnum. SFS hafi á undanförnum ítrekað bent á mikilvægi þessa.

„Nýrrar stjórnar bíða fjölmörg verkefni, enda spannar sjávarútvegur vítt svið. Sjávarútvegur er alþjóðleg atvinnugrein, þar sem samkeppnin er gríðarlega hörð. Þess vegna þarf nauðsynlega að vinna að því að skapa sem mesta sátt um þessa þjóðhagslegu mikilvægu atvinnugrein.

Tökum því út pólitíska kosningafrasa og leyfum greininni að halda áfram að skapa þjóðarbúinu hagsæld og vera örygginet á erfiðum tímum, sem sýndi sig t.d. í heimsfaraldrinum.

Slík sátt er allra hagur að mínu mati og löngu tímabær,“ segir Hákon Þröstur Guðmundsson.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir og Hákon Þröstur Guðmundsson

Viðtalið birtist fyrst á heimasíðu Samherja

 


Athugasemdir

Nýjast