Norðurþing, í fréttum er þetta helst í desember

Frá tendrun jólatrés á Raufarhöfn.
Frá tendrun jólatrés á Raufarhöfn.

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings skrifarKata sveit

Fyrir áhugasama langar mig að stikla á stóru í þeim málefnum í Norðurþingi sem eru efst á baugi þessa stundina. Ber þar fyrst að nefna að síðari umræða um fjárhags- og framkvæmdaáætlun 2024-2027 fór fram í lok nóvember og var hún samþykkt samhljóða af öllum sveitarstjórnarfulltrúum enda mikil og góð samvinna að baki áætlunarinnar. Hægt er að skoða fjárhagsáætlunina og greinargerð vegna hennar á heimasíðu Norðurþings undir fundargerð sveitarstjórnar frá 30. nóvember sl.

Hjúkrunarheimilið

Uppbygging nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík hefur verið ofarlega í vinnslubunkanum á árinu og líka frá því ljóst var að engin tilboð bárust í byggingu þess. Ríkiseignir eru að skoða næstu mögulegu skref og eru í samvinnu við sveitarfélögin þrjú um málið, Norðurþing, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit. Næsti samráðsfundur verður haldinn fyrir jól og vonandi skýrist þá staða málsins eitthvað.


Frístund og félagsmiðstöð

Bygging nýs húsnæðis fyrir Frístund og félagsmiðstöð ungmenna á Húsavík er núna á teikniborðinu sem viðbygging við Borgarhólsskóla. Það varð niðurstaðan eftir víðtækt samráð hagaðila málsins eftir langt undirbúningsferli í nokkur ár. Nú í haust voru settar niður færanlegar húseiningar við Borgarhólsskóla sem vonandi komast í gagnið í janúar en enn vantar búnað í kennslustofurnar. Um er að ræða bráðabirgðahúsnæði til að mæta húsnæðisþörfinni á meðan verið er að byggja aðstöðu fyrir Frístund og félagsmiðstöð.

Uppbygging íbúðahúsnæðis

Mikil deiliskipulagsvinna hefur verið í gangi til að skapa lóðir til uppbyggingar í sveitarfélaginu. Breytt deiliskipulag fyrir Reitinn á Húsavík var tekið í notkun á árinu. Skipulagstillaga vegna íbúðasvæðis á Kópaskeri er í kynningu og tillaga að deiliskipulagi nýs íbúðasvæðis norðan Lyngbrekku á Húsavík er í vinnslu. Þá hefur skipulags- og framkvæmdaráð falið skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja undirbúning að endurskoðun deiliskipulags Stórhóll - Hjarðarholt á Húsavík með það að markmiði að þétta byggð innan svæðisins. Þá er fyrirhugað að deiliskipuleggja svæði fyrir nýjar lóðir á Raufarhöfn á árinu 2024. Endurskoðun húsnæðisáætlunar er að fara í gang en húsnæðisáætlanir eru gerðar til 10 ára í senn. Þær koma til endurskoðunar ár hvert og skulu staðfestar af viðkomandi sveitarstjórn en stefnt er á að afgreiða nýja húsnæðisáætlun á næsta fundi sveitarstjórnar þann 18. janúar nk.

Atvinnulíf

Það er líka verið að skipuleggja og byggja upp fyrir atvinnulífið bæði á vegum sveitarfélagsins og fyrirtækja. Á Húsavík er gatnagerð á Höfðanum í fullum gangi og búið er að fela skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja undirbúning að breytingu á deiliskipulagi miðhafnarsvæðis m.a. vegna endurskipulagningar byggingarréttar við Naustagarð. Mikil skipulagsvinna er í gangi hjá fyrirtækjum í Kelduhverfi og Öxarfirði vegna stækkunar landeldis á fiski sem byggir á auðlindum á svæðinu. Nú er unnið að endurskoðun aðalskipulags Norðurþings. Vinnan gengur í samræmi við áætlanir og stefnt er að því að endurskoðað aðalskipulag taki gildi sumarið 2025.

Grænn iðngarður

Eitt af stóru framtíðarverkefnum Norðurþings er uppbygging græns iðngarðs á Bakka við Húsavík. Þó ekki sjáist nýjar framkvæmdir á svæðinu er mikil vinna í gangi og búið að haka við flest það sem átti að vinna á árinu 2023. Heimasíða um verkefnið er á lokametrum og verður spennandi að sjá hana líta dagsins ljós en hún er grundvallaratriði til að kynna svæðið vænlegum fjárfestum í harðri samkeppni við önnur hliðstæð hringrásarsvæði í heiminum. Þetta er langhlaup sem krefst mikillar undirbúningsvinnu.

Jólastemning

Um síðustu mánaðarmót var tendrað á öllum fjórum jólatrjánum á vegum sveitarfélagsins, í Lundi, á Kópaskeri, á Raufarhöfn og á Húsavík. Árlegur verkstæðisdagur í Borgarhólsskóla fór fram í síðustu viku með brosandi fólki, föndri og kaffihúsi. Í Öxarfjarðarskóla er nýlokið velheppnaðri árshátíð og föndurdegi og krakkarnir í Grunnskólanum á Raufarhöfn kynntu nýverið vinnu sína og buðu foreldrum upp á spurningaleik. Nóg að gera og gaman um allt sveitarfélagið.

Bestu kveðjur úr Norðurþingi á aðventu 2023.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.


Athugasemdir

Nýjast