Aukið aðgengi að áfengi

Bjarkey Ó Gunnarsdóttir Vg skrifar
Bjarkey Ó Gunnarsdóttir Vg skrifar

„Ókeypis heimsending og dropp afhending“, Og hvað er það sem er afhent heim að dyrum? Jú, það er áfengi. Netsala á áfengi hefur vaxið síðustu ár. Með því að selja áfengi í gegnum erlendar vefsíður og senda heim til fólks er farið blygðunarlaust á svig við einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til smásölu á áfengi og lög brotin og yfirvöld gera ekkert í málinu.

 
 Talsmenn netsölu segja þetta vera mikið frelsismál. Í mínum huga er þetta liður í því að höggva í núverandi fyrirkomulag enda iðulega skautað fimlega framhjá þekktum afleiðingum aukins aðgengis að áfengi. Aukið aðgengi eykur neyslu með tilheyrandi áhrifum á velsæld fólks og fjölskyldur þeirra og óumdeilanlega mikils samfélagslegs kostnaðar.
 
Veigamestu rökin fyrir því að takamarka aðgengi að áfengi lúta einmitt að lýðheilsusjónarmiðum, rétt eins og við takmörkum aðgengi að ýmsum skaðlegum efnum á nákvæmlega þeim forsendum. Stóra myndin er sú að síðustu áratugi dró verulega úr neyslu ungmenna á áfengi. Það gerðist með markvissu forvarnarstarfi. Því miður höfum við séð bakslag í þeirri baráttu. Frá fermingaraldri og fram yfir tvítugt eru börn og ungmenni hvað viðkvæmust fyrir neyslu áfengis. Rannsóknir hafa sýnt að hættan á því að einstaklingar þrói með sér sjúkdóma sem tengjast áfengisneyslu sé mest á þessu æviskeiði. Ávinningurinn af því að börn og ungmenni láti það kyrrt liggja að neyta áfengis er því algjör. Með aukinni neyslu eykst sömuleiðis tíðni skorpulifur, heimilisofbeldis, slysa og svo mætti lengi telja.
 
Hluti af þessari þróun eru áfengisauglýsingar í útvarpi, á netinu og á samfélagsmiðlum, hvernig netsölumenn koma því á framfæri við fólk að það geti fengið áfengi seint heim að dyrum. Einn aðili auglýsir t.d. „Við sendum áfengi heim – megum bara ekki auglýsa það“ og kemst upp með það. Með auknum sýnileika þessara auglýsinga og normalíseringu fjölgar óhjákvæmilega þeim stundum í daglegu lífi þar sem áfengi ber fyrir augu. Mér þykir þessi þróun alvarleg og við sem höfum staðið gegn búsi í búðir og öðrum breytingum á núverandi fyrirkomulagi hljótum að líta svo á að hér sé verið að færa víglínuna til og við því þarf að bregðast.
 
Komi frumvarp dómsmálaráðherra um netsölu til þingsins mun ég ekki greiða því atkvæði.

Athugasemdir

Nýjast