Hátíðarútgáfa af skjaldarmerki Akureyrar prjónað og heklað úr 3107 bútum

Á laugardaginn kl. 13.00 opnar árleg handverkssýning Félagsstarf eldri borgara á Akureyri í þjónustu- og félagsmiðstöðinni í Víðilundi og stendur sýningin yfir 12.-16. maí og er opin þessa daga kl  13-17.  Sýningin þetta árið ber aldeilis merki þess að bærinn eigi 150 ára afmæli því meðal þeirra listmuna sem verða til sýnis er hátíðarútgáfa af skjaldarmerki Akureyrar, prjónað og heklað úr hvorki meira né minna en 3107 bútum og er stærð verksins 180X240m. Að sögn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur forstöðumanns Þjónustu- og félagsmiðstöðvar eldri borgara var frekar lítil trú innan hópsins í upphafi um að þetta gæti orðið að veruleika en sú trú breyttist hægt og rólega og í lokin var kappið og ákafinn orðinn svo mikill að úr varð einstakt listaverk gert af miklu hæfileikafólki. Auk þessa listaverks verður fjöldi annarra muna á sýningunni tengdir Akureyri á einhvern hátt  s.s. útsaumur, vatnslitamyndir, akríl-og olíumálverk.  Meðfylgjandi er ljósmynd af einu þessara verka. 

Í tengslum við sýninguna er köku- og kaffisala  frá kl. 13.30-16.00 og líflegt markaðstorg kl. 13.00-17.00. Fólk er hvatt til að heimsækja félagsmiðstöðina og skoða skemmtilegt og vandað handverk eldri borgara á Akureyri.