Halli á rekstri Sjúkrahússins á Akureyri 17 milljónir í fyrra

Halli á rekstri Sjúkrahússins á Akureyri var 17 milljónir króna á síðasta ári, eða 0,4% miðað við fjárveitingu. Í árslok var höfuðstóll jákvæður um 41,5 milljónir króna. Borið saman við árið 2010 fækkaði innlögnum og legudögum en aukin starfsemi var þó á nokkrum deildum, svo sem á lyflækningadeild og geðdeild. Flestum tegundum rannsókna fjölgaði á milli ára. Ársfundur Sjúkrahússins á Akureyri verður haldinn miðvikudaginn 23.  maí og þá verður gerð grein fyrir starfseminni á sl. ári. Þetta kemur fram í pistli Bjarna Jónassonar forstjóra, á vef sjúkrahússins. “Á síðasta ári náðum við umtalsverðum árangri með margháttuðum sparnaðaraðgerðum. Við höldum áfram að sýna ráðdeild í verki. Sérstaklega er athyglisvert að útköllum á deildum hefur fækkað umtalsvert fyrstu mánuði ársins, þrátt fyrir meiri starfsemi. Þetta sýnir okkur að með samstilltu átaki allra náum við árangri,” segir Bjarni.