Starfsfólk í landvinnslu Samherja á Dalvík heima í dag

Framkvæmdastjóri DFFU, dótturfélags Samherja í Þýskalandi, segir að Seðlabankinn hafi ekki enn upplýst um hvað fyrirtækið er grunað um að hafa gert rangt í viðskiptum á Íslandi. Því standi enn ákvörðun fyrirtækisins um að hætta tímabundið viðskiptum við Ísland. Hundrað starfsmenn fiskvinnslu Samherja á Dalvík eru heima í dag sökum hráefnisskorts en til stóð að skip DFFU lönduðu þar um 3.500 tonnum af afla næstu vikurnar.

Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. DFFU sá ekki aðra leið færa á meðan ekki væri upplýst um hvað fyrirtækið væri grunað um að hafa gert rangt í viðskiptum á Íslandi. Seðlabankinn afhenti umbeðin gögn til Samherja á dögunum. Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri DFFU, segir að þar hafi ekki komið fram meint sakarefni fyrirtækisins. Ástandið sé óbreytt, engar upplýsingar hafi fengist um hvernig þeir séu taldir hafa brotið lögin. Gestur Geirsson landvinnslustjóri á Dalvík, segir á vef RÚV að fiskvinnslan hafi tryggt sér hráefni fram í næstu viku, en framhaldið eftir það sé óljóst. Haraldur segir skamman tíma til reiðu, skipin séu að veiðum en hann voni bara að farsæl lausn finnist.